Reglur sjóðsins
Reglur sjóðsins eru í vinnslu og verða birtar hér um leið og drög að þeim liggja fyrir. Sjóðurinn verður rekinn sem sjálfstætt almannaheillafélag samkvæmt lögum þar um.
Fullt gagnsæi veriður um rekstur og starfsemi sjóðsins. Skýrt verður frá því opinberlega hverjir leggi sjóðnum til fjármagn og hvaða blaðamenn hljóti styrki úr honum, hve háa upphæð og til hvaða verkefna. Skýrt verður tekið fram í reglum sjóðsins að framlög til hans veita enga fyrirgreiðslu um neins konar umfjöllun og munu ekki hafa nein áhrif á úthlutanir styrkja. Blaðamannafélag Íslands mun skipa í úthlutunarnefnd.
Uppbygging sjóðsins verður þrepaskipt og miðast við hversu vel tekst að fjármagna hann. Í fyrsta fasa verður styrkjum úthlutað til sjálfstætt starfandi blaðamanna. Fáist til þess fjármagn verður ráðist í annan fasa, sem eru styrkir til náms og endurmenntunar á sviði blaðamennsku. Skapist fjárhagslegt ráðrúm verður ráðist í þriðja fasa þar sem bætt verður við úthlutunum til þróunar og nýsköpunar á sviði blaðamennsku og fjölmiðlunar.
Fjármögnun sjóðsins
Stefnt er á að safna að lágmarki eitt hundrað milljónum króna á árinu 2023 sem verða nýttar til úthlutunar strax í upphafi ársins 2024. Verið er að vinna að rekstraráætlun sjóðsins og fjárfestingaátlun og -stefnu. Drög verða birt um leið og þau verða tilbúin.
100 milljónir markmiðið svo styrkja megi 60 blaðamenn
Þar sem fjármögnun sjóðsins er enn á upphafsstigi er ekki ljóst hverjar undirtektir verða. Stefnt er að því að safna minnst 100 milljónum króna fyrir lok árs 2023 og að hefja úthlutun strax í janúar 2024. Markmiðið er að tvöfalda þá upphæð fyrir starfsárið 2025. Takist að safna 100 milljónum verður hægt að veita um það bil 60 blaðamönnum styrki, miðað við þær forsendur sem lagt er upp með, að styrkur nemi um 500 þúsund krónum á mánuði og að meðaltali fái hver blaðamaður styrk í þrjá mánuði í hvert verkefni. Rekstur sjóðsins og utanumhald verður kostaður af Blaðamannafélagi Íslands a.m.k. fyrsta starfsár sjóðsins.
Álitaefni tengd fjármögnun sjóðs fyrir blaðamenn
Eitt af því sem mikilvægt er að ræða opinskátt í tengslum við stofnun sjóðs sem fjármagnar blaðamennsku er hvernig hægt er að tryggja hlutleysi blaðamanna gagnvart þeim sem veita styrkina. Hafa ber í huga að hlutleysið er eitt að grunngildum blaðamennsku og beinlínis skrifað inn í siðareglur Blaðamannafélags Íslands. Þar er einnig ákvæði sem segir að blaðamaður þiggi ekki mútur, gjafir eða fyrirgreiðslu af neinu tagi . Hann forðist hagsmunaárekstra, geri grein fyrir tengslum við umfjöllunarefnið ef við á og taki ekki þátt í verkefnum sem kynnu að stofna sjálfstæði hans og trúverðugleika í hættu.
Í úthlutunarreglum er gert ráð fyrir ákvæði þess efnis að með styrkumsókn lýsi blaðamaður því yfir að hann starfi samkvæmt siðareglum BÍ. Þá er einnig til umræðu að hafa í úthlutunarreglum ákvæði um að gerist blaðamaður sekur um alvarlegt brot á siðareglum BÍ skv. úrskurði siðanefndar BÍ, beri honum að endurgreiða styrkinn. Þá skal áréttað að óháð úthlutunarnefnd, skipuð af Blaðamannafélagi Íslands, veitir styrki samkvæmt reglum þar um.
Ennfremur ber að nefna að ekki eru meiri líkur á að blaðamaður gerist hallur undir hagsmuni fjársterkra aðila sem eru meðal þeirra sem leggja sjóðnum fé - en að hann verði hallur undir hagsmuni eigenda fjölmiðlafyrirækis sem hann þiggur laun frá - sem blaðamenn gera að sjálfsögðu ekki, enda væri það brot á siðareglum.
Þá má benda á fjölmargar fyrirmyndir að sjóði sem þessum víða um heim, svo sem norski sjóðurinn Fritt Ord, sem veitir styrki til blaðamanna og listamanna með það að markmiði að styrkja tjáningarfrelsi, opinbera umræðu og listir og menningu.